Hver er Halla Hrund?

Halla Hrund er fædd í Reykjavík 12. mars 1981. Foreldrar hennar eru Jóhanna Steingrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur og EMDR meðferðaraðili, og Logi Ragnarsson tölvunarfræðingur. Halla Hrund á einn yngri bróður, Hauk Stein Logason, yfirframleiðanda hjá CCP. Eiginmaður Höllu er Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins 50skills. Þau eiga tvær dætur, Hildi Kristínu, 11 ára, og Sögu Friðgerði, 4 ára. 

Föðurforeldrar Höllu Hrundar voru frá Leiðólfsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu og Hléskógum í Höfðahverfi nærri Grenivík. Móðurforeldrar hennar voru bændur í Hörgslandskoti á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu, og dvaldi Halla hjá þeim öll sumur og í flestum lengri fríum fram á fullorðinsár.

Orku- og umhverfismál á Íslandi og um allan heim

Halla Hrund ólst upp í Árbænum og gekk í Árbæjarskóla. Þaðan fór hún í Kvennaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi árið 2001. Halla Hrund er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í alþjóðasamvinnu með áherslu á hagfræði og orkumál frá The Fletcher School við Tufts háskóla, og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard háskóla með áherslu á umhverfis- og orkumál.

Halla Hrund var skipuð orkumálastjóri árið 2021, fyrst kvenna. Hún starfar jafnframt sem aðjúnkt við Harvard háskóla þar sem hún kennir á meistarastigi. Frá árinu 2017 hafði hún starfað sem meðstofnandi og framkvæmdastjóri við Miðstöð norðurslóða, Arctic Initiative, við Harvard. Árið 2019 var Halla Hrund valin Young Global Leader og kom hún að kortlagningu breytingaþátta norðurslóða á vettvangi World Economic Forum. Á árunum 2015-2021 vann  Halla Hrund að nýsköpunarverkefninu Arctic Innovation Lab í samvinnu við fjölda háskóla og var leiðbeinandi í ýmsum orkutengdum nýsköpunarhröðlum. 

Jafnréttismál, menning, menntun og alþjóðamál

Halla Hrund hefur setið í stjórn Orkusjóðs frá árinu 2015. Sama ár hóf hún störf sem stundakennari við Háskólann í Reykjavík (HR), þar sem hún kennir námskeið um stefnumótun á sviði orkumála með áherslu á loftslagsmál. Halla Hrund var framkvæmdastjóri Iceland School of Energy við HR frá árinu 2013 fram til ársins 2016. Árin 2011 til 2013 var Halla Hrund forstöðumaður alþjóðaþróunar við HR. 

Samhliða stofnun Arctic Initiative vann Halla Hrund að stofnun alþjóðlega jafnréttisverkefnisins Stelpur styðja stelpur (e. Project Girls for Girls). Þar tóku konur frá átta ríkjum úr ólíkum heimsálfum sig saman og byggðu upp verkefni sem miðar að því að efla færni og styrkja tengsl ungra kvenna. Verkefnið er í dag með starfsemi í tugum ríkja.

Fyrst eftir útskrift úr stjórnmálafræði árið 2005 lá leið Höllu Hrundar til Brussel í Belgíu þar sem hún starfaði á vegum utanríkisráðuneytisins að menningarmálum. Þar hélt hún meðal annars eina stærstu menningarhátíð sem Ísland hefur haldið erlendis með þátttöku Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins, Iceland Airwaves, Listasafns Reykjavíkur og fleiri aðila. Frá Brussel fór Halla Hrund til Tógó í Vestur-Afríku þar sem hún tók þátt í nýsköpunar- og kennsluverkefni í höfuðborg landsins, Lomé. Halla Hrund fór síðan til Parísar og vann í nokkra mánuði hjá OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, áður en hún hélt áfram námi. 

Sterkar rætur í sveitinni og skýr framtíðarsýn

Sem barn og unglingur var Halla Hrund öll sumur sem og flest jóla- og páskafrí í sveit hjá ömmu sinni og afa í Hörgslandskoti á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu, og hefur fátt mótað sýn og gildi Höllu Hrundar meira en tíminn sem hún varði fyrir austan. 

Halla Hrund hefur stundum sagt að allt sem hún kann hafi hún lært í sveitinni. Hún lærði að það þurfti að hafa fyrir verkefnunum og leggja mikið á sig, og að samvinna og samstaða væri lykilatriði til að koma hlutunum í verk. Í sveitinni lærði Halla Hrund einnig að bera virðingu fyrir landinu og náttúru þess, hún lærði að nýta landið og njóta þess, fara vel með gæði þess og hversu mikilvægt það er að skila landi og náttúru af sér í góðu ásigkomulagi fyrir komandi kynslóðir. 

Halla Hrund sómir sér jafn vel á heimavelli í íslenskri sveit og á alþjóðavettvangi. Hún þekkir náttúru, menningu, sögu og sérstöðu Íslands og brennur fyrir íslenskt samfélag. Sem forseti Íslands hyggst Halla Hrund leggja sitt af mörkum til að fjölga tækifærum okkar allra, hér heima og að heiman, efla samkennd og samstöðu þjóðarinnar, hlúa að sjálfbærri og friðsælli framtíð — með hagsmuni almennings að leiðarljósi. 

Almenningur og auðlindirnar

Halla Hrund tók við starfi orkumálastjóra árið 2021. Hún hefur lagt á það ríka áherslu að nálgast þurfi orku- og auðlindamál af yfirvegun, með almannahagsmuni og langtímahugsun að leiðarljósi.

Halla Hrund hefur bent á verðmæti auðlindanna sem Íslendingar hafa aðgang að og mikilvægi þess að þær séu nýttar á skynsamlegan og sjálfbæran hátt. Hún hefur varað við því að almenningur lendi í samkeppni við erlenda orkukaupendur og bent á að regluverk verði að sníða að þörfum landsmanna en ekki stórfyrirtækja.

Hér má finna úrval greina sem Halla Hrund hefur skrifað um nýtingu auðlinda.
„Forseti Íslands á ekki að vera í pólitískum dansi. Ég hef aldrei starfað í stjórnmálaflokki og er óháð öllum hagsmunaöflum. Ég býð mig fram fyrir fólkið í landinu og hef almannahagsmuni að leiðarljósi.“

Greinar til stuðnings Höllu Hrund

Stuðningsfólk Höllu Hrundar kemur úr öllum áttum. Hér má finna blaðagreinar sem þau hafa skrifað um af hverju þau veita henni sinn stuðning.